Ungir einsöngvarar í ÍÓ þri. 25. jan. kl. 12.15

 Hinir sívinsælu hádegistónleikar ungra einsöngvara í Íslensku óperunni verða næst haldnir þriðjudaginn 25. janúar kl. 12.15. Að þessu sinni er Snorri Wium gestasöngvari á tónleikunum, en þessi kunni tenórsöngvari hefur á undanförnum árum komið reglulega fram á íslensku tónleikasviði og tekið þátt í uppfærslum Íslensku óperunnar.

Efnisskrá tónleikanna að þessu sinni er í léttari kantinum, en þar er að finna atriði úr óperunum Brúðkaupi Fígarós og Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir W. A. Mozart, óperettunni Paganini eftir Franz Lehár og söngleikjunum Annie Get Your Gun eftir Irving Berlin og West Side Story eftir Leonard Bernstein. Aðstoð við sviðssetningu annast Sibylle Köll.

Aðgangseyrir er aðeins 1.500 kr og geta gestir keypt léttar veitingar í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana.

Flytjendur: Snorri Wium, tenór,  Bragi Jónsson, bassi, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópran, Magnús Guðmundsson, baritón, Rannveig Káradóttir, sópran, Rósalind Gísladóttir, mezzó-sópran, Antonía Hevesi, píanó.

Hanna Þóra bæjarlistamaður Akraness

 Við athöfn í Listamiðstöðinni Kirkjuhvoli 18. janúar var Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkona tilnefnd bæjarlistamaður Akraness árið 2011.

Gunnhildur Björnsdóttir  tilkynnti tilnefninguna fyrir hönd Akranesbæjar. Hanna Þóra flutti stutt síðan ávarp. Hún sagði mikinn heiður og hvatningu að vera útnefnd bæjarlistamaður. „Ég mun ótrauð halda áfram og ég á mér bæði litla og stóra drauma. Ég hef alltaf sett mér raunhæf markmið sem ég hef unnið að. Framíðin mun svo leiða mig áfram á þann stað sem mér er ætlaður. Ég trúi því að öll mín vinna tengd söngnum muni ávallt nýtast mér vel í hverju sem ég tek mér fyrir hendur. Fyrir mér eru það forréttindi að syngja þó leiðin upp á við sé stundum erfið. Það er skemmtilegur tími framundan hjá mér eins og alltaf. Ég er full tilhlökkunar,“ sagði nýr bæjarlistamaður Akraness meðal annars í ávarpi sínu.

Tónleikar Kristins og Jónasar endurteknir lau. 29. jan. kl. 16

Kristinn Sigmundsson og Jónas Ingimundarson héldu tvenna tónleika í Salnum um helgina fyrir sprengfullu húsi. Þeir verða endurteknir á laugardag 29. janúar kl. 16.  Á efnisskrá eru sönglög eftir Beethoven, Jónas Ingimundarson og John Speight og Mozart aríur. Efnisskrána má sjá á  salurinn.is , en einungis eru örfáir miðar eftir óseldir. Miðaverð 3.500 kr. og 2.900 kr. fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn.

 

 Miðasala á www.salurinn.is og í síma 570 0400 kl. 14-18 virka daga!