Ungir einsöngvarar og Garðar Thór í ÍÓ þri. 22. mars kl. 12.15

 Óperurnar Öskubuska, Brúðkaup Fígarós og Ástardrykkurinn eru í forgrunni á efnisskrá næstu hádegistónleika Íslensku óperunnar sem fram fara þriðjudaginn 22. mars kl. 12.15. Flytjendur eru úr röðum ungra íslenskra einsöngvara en gestasöngvari á tónleikunum er tenórsöngvarinn Garðar Thór Cortes. Sviðssetningu atriðanna annast Sibylle Köll. Aðrir einsöngvarar: Bragi Jónsson, bassi, Erla Björg Káradóttir, sópran, Magnús Guðmundsson, baritón, Rannveig Káradóttir, sópran, Rósalind Gísladóttir, mezzó-sópran, Sibylle Köll, messó-sópran, Antonía Hevesi, píanó.

Aðgangseyrir á tónleikana er aðeins 1.500 kr. Gestir geta keypt léttar veitingar í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana. Missið ekki af skemmtilegri hádegisstund í Íslensku óperunni!

Continue reading „Ungir einsöngvarar og Garðar Thór í ÍÓ þri. 22. mars kl. 12.15“

JAZZSÖNGSMIÐJA f. klassíska söngvara í Gerðubergi 20. mars

 Kristjana Stefánsdóttir heldur jazznámskeið fyrir klassískt menntaða söngvara í Gerðubergi 20. mars kl. 13-17. Kjartan Valdemarsson píanóleikari verður píanóleikari og meðkennari.

Þau Kristjana og Kjartan hafa verið samkennarar við söngdeild Tónlistarskóla FÍH í um 10 ár og hafa margir efnilegir tónlistarmenn útskrifast frá skólanum undir þeirra handleiðslu.

Unnið verður með öll helstu stílbrigði jazzins. Einnig verður farið í allan rythma, hvernig maður vinnur með jazzbandi, hvernig lög eru talin inn, hver munurinn er á ballöðu, medium swing, uptempo, latin o.s.frv.  Öll helstu trikkinn sem hver rytmískur söngvari þarf að hafa verða sett upp á borð.  Þetta er tilvalið tækifæri fyrir klassíska söngvara/kennara að kynna sér þennan stíl.  

10 virkir nemendur komast að en námskeiðið er opið til áheyrnar öllum þeim sem hafa áhuga á jazztónlist.
Nemendur þurfa að hafa undirbúið a.m.k. tvö lög í mismunandi stíl og hafa með sér nótur af þeim í sinni tóntegund.

Þátttökugjald er 5.000 kr. Skráning er hafin á gerduberg@reykjavik.is

Nánari upplýsingar um söngsmiðjuna veitir Kristjana Stefánsdóttir, svalasjana@gmail.com

Sjá nánar um söngsmiðjuna, Kristjönu og Kjartan hér .

3 klassískar í FÍH 20. mars kl. 17

 Söngkonurnar síkátu, Björk Jónsdóttir, Jóhanna V. Þórhallsdóttir og Signý Sæmundsdóttir halda söngskemmtun í hátíðarsal FÍH sunnudaginn 20 mars kl. 17.00
Þær hafa fengið til liðs við sig tvo prúðbúna herramenn, þá Bjarna Þór Jónatansson píanóleikara og Gunnar Hrafnsson bassaleikara. Saman munu þau töfra fram ljúfa tóna í klassískum útsetningum ásamt hugljúfum danslögum, bæði tangóum og völsum, ítölskum smellum og íslenskri sveitarómantík. Tónlistarfólkið er allt starfandi við tónlist. Tónlistarnemendur þeirra samanlagðir hlaupa á hundruðum, enda eru hér reynsluboltar á ferðinni. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.