Barokkskraut í Tónó lau. 2. apríl kl. 10.30

 Kæru félagar,
nú boðum við til síðasta fræðslumorguns þessa vetrar, enda vorið á næsta leiti. Við hittumst  kl 10.30, laugardaginn 2. apríl í bókasafni Tónlistarskólans í Reykjavík, Skipholti 33, á annarri hæð.  Marta Guðrún Halldórsdóttir ætlar að fræða okkur um skraut og flúrsöng innan barokkstílsins, með fyrirlestri og tóndæmum. Tilvalið að taka fróðleiksfúsa nemendur með. Samkvæmt hefðinni tökum við gott spjall á eftir og fáum okkur kaffi og með því. Gleymið svo ekki að taka föstudaginn 8. apríl frá fyrir Happy hour, sem verður að þessu sinni á Grand Hóteli.
Fyrir hönd stjórnarinnar,
Hlín Pétursdóttir Behrens

Perluportið frumsýnt í ÍÓ 8. apríl kl. 20

 Fjórir heimilisleysingjar gramsa í ruslatunnum í óhrjálegu porti. Hverjum hefði dottið í hug að þar leyndust skínandi perlur óperubókmenntanna?

Tónlist úr óperum á borð við Brúðkaup Fígarós, Gianni Schicchi, La traviata, Cosi fan tutte, Rakarann í Sevilla – og að sjálfsögðu Perlukafarana, öðlast nýtt líf í stórskemmtilegu sýningu úr smiðju Ágústu Skúladóttur (Ballið á Bessastöðum, Ástardrykkurinn, Klaufar og kóngsdætur) og félaga, sem frumsýnd verður í Íslensku óperunni föstudaginn 8. apríl næstkomandi. Fylgist með nokkrum af færustu söngvurum Íslands flytja ódauðleg meistaraverk í sprellifandi og sprenghlægilegum búningi!

Hér er jafnframt um að ræða síðasta verkefni Íslensku óperunnar í húsnæði sínu til þrjátíu ára. Næsta frumsýning Íslensku óperunnar verður því í Hörpu, og eru því síðustu forvöð að sjá óperusýningu í hinu gamla og sjarmerandi húsnæði við Ingólfsstræti.

Söngvarar: Ágúst Ólafsson, Gissur Páll Gissurarson, Hulda Björk Garðarsdóttir og Valgerður Guðnadóttir.

 

Píanóleikari: Antonía Hevesi – Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir  – Leikmynd: Guðrún Öyahals – Búningar: Katrín Þorvaldsdóttir – Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson

Allar nánari upplýsingar um sýninguna um sýninguna á www.opera.is.

Myndband  frá æfingum

Anastasia Belukova 25. mars kl. 20 í Kristskirkju

 Rússneski fiðluleikarinn og stjórnandinn Vladimir Spivakov heldur tónleika ásamt fjórum löndum sínum föstudaginn 25. mars nk. í dómkirkju Krists konungs í Reykjavík og hefjast tónleikarnir kl. 20.00.

Ásamt stjórnandanum koma fram þau Anastasia Belukova sópran, Eremy Tsukerman fiðla, Dmitry Prokofiev selló og Zoya Abolits sembal. Á efnisskránni eru verk eftir J.S. Bach: Resitatíf og aría fyrir sópran úr kantötu nr. 57, aría úr kantötu nr. 186, aría úr kantötu nr. 68, sónata fyrir fiðlu og píanó, resitatíf og aría fyrir sópran úr kantötu nr. 57, aría fyrir einsöngssópran og aría úr kantötu nr. 208.

Tónleikarnir eru haldnir til styrktar íslenskum málefnum og umsjón með þeim hefur Kaþólska kirkjan á Íslandi. Miðar eru seldir á midi.is og er miðaverð kr. 4000.