HÁTÍÐLEGIR LJÓÐATÓNLEIKAR Á HVÍTASUNNUDAG
Þýski tenórinn Christoph Prégardien er einn fremsti ljóða- og óratoríusöngvari heims. Hann flytur ein fegurstu ljóð Schubert og Schumann á sunnudag á Listahátíð ásamt Ulrich Eisenlohr píanóleikara.
Christoph Prégardien er hátt skrifaður lýrískur tenór og mikils metinn kennari, sem hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í útbreiðslu kammertónlistar. Ulrich Eisenlohr hefur einnig sérhæft sig í kammertónlist og hefur skipað sér virðingarsess með löngum ferli sínum sem konsertpíanisti og meðleikari í Evrópu, Ameríku og Japan. Eisenlohr er listrænn stjórnandi og píanóleikari í heildarútgáfu Naxos á ljóðum Schubert.
Á fyrri hluta tónleikanna flytja þeir níu ljóðasöngva eftir Franz Schubert við ljóð Ernst Schulze. Þar á meðal eru glæsileg lög eins og Auf der Bruck, Über Wildeman og Im Frühling. Á síðari hluta tónleikanna flytja þeir ljóðaflokkinn Liederkreis op. 39, eftir Robert Schumann við ljóð Joseph von Eicherdorff. Í tengslum við tónleika Prégardien og Eisenlohr standa Listahátíð og Félag íslenskra söngkennara (FÍS) fyrir opnu námskeiði, Master Class, með pörum íslenskra söngvara og píanóleikara. Sjá meiri upplýsingar hér.
Tónleikar Prégardien og Eisenlohr eru í Hörpu, Norðurljósum á hvítasunnudag kl. 15.
Smelltu hér til að kaupa miða eða hafðu samband við miðasölu í síma 528-5050.