„The way to deal with the world today is not to ignore it. Otherwise you will go down.“
Marha Levinson, Downton Abbey
Á aðalfundinum reifaði fráfarandi formaður, Hlín Pétursdóttir Behrens, spurningar, sem varða okkur öll, og hefur hún góðfúslega leyft okkur að birta hugleiðingar sínar. Ekki er úr vegi að taka þessi atriði upp sem umræðuefni á spjallfundi félagsins, 17. nóvember nk.
Mig langar að hvetja til aukinnar umræðu á vegum félagsins um framtíð söngkennslu og tónlistarkennslu í landinu. Við viljum auðvitað að allt verði áfram eins og það hefur alltaf verið. Það er augljóslega ekki raunhæft eða æskilegt. Allt er breytingum háð og ef við viljum ekki að breytingarnar komi aftan að okkur þá er eins gott að reyna að átta sig á því hvað við viljum og hvernig við getum mögulega komið þeim sjónarmiðum á framfæri.
Á mér brenna tvær spurningar. Báðar mótast af því að við erum lítið samfélag, í starfi eins og okkar myndast fljótt kunningskapur og vinátta, sem betur fer. En þetta hefur fagleg áhrif.
Fyrsta spurningin (án þess að vilja særa neinn, sýna vanvirðingu eða vera ósvífin) snertir starfsaldur söngkennara. Væri það að fara yfir strikið að æskja þess að söngkennarar sem hafa náð eftirlaunaaldri fari á eftirlaun? Ef maður er vinsæll kennari, eru einkatímar fín lausn, það er líka hægt að halda sambandi við skólana sína með því að mæta á tónleika og sýningar. Ef maður er snilldar skipuleggjandi eða uppfræðari með breitt kunnáttusvið þá er hægt að starfa sem slíkur á ýmsum vetvangi sem skólarnir geta líka búið til, en það þarf að hleypa nýjum kynslóðum söngkennara að, er það ekki? Á þessi spurning eitthvert erindi innan okkar vébanda? Þurfum við sem fagfélag að koma henni áleiðis til menntamálaráðuneytissins?
Ég verð að gera enn meiri fyrirvara við næstu spurningu. Öll erum við háð okkar breiða nemendahópi og viljum ekki, né getum, misst spón úr okkar aski ef við ætlum að lifa af í þessu landi. En spurningin er: Hverja erum við að mennta? Unga einsöngvara? Unga söngkennara? Kórsöngvara í atvinnukóra eða áhugamannakóra? Starfsfólk í hlutastörf á vegum útfararstofnana? Hve stór hluti af nemendum okkar eru vel yfir þrítugu þegar þeir hefja sitt nám eða taka sín lokapróf og munu aldrei gera annað en að syngja í hjáverkum? Misskiljið mig ekki, ég vil að söngkennsla sé öllum aðgengileg á viðráðanlegu verði og allt það og að fjölbreytt listaflóra og menntaflóra þrífist. En það mun koma að því að við þurfum að svara þessari spurningu: Hvaða nemendur eiga heima í niðurgreiddu skólakerfi og hvaða nemendur, t.d. þeir sem eru í vel launuðu starfi, eiga með réttu að standa straum af kostnaðinum við sitt nám, sjálfir, læra innan einkastofnana eða í námsflokkakerfi. Við viljum ekki missa þessa nemendur, það segir sig sjálft, þeir kunna að vinna og hafa þroska og þolinmæði til að sinna náminu. Þurfum við að tengjast menntaskólunum beint til að koma okkur á framfæri, hafa í okkur og á og koma auga á efni? Þurfum við að tengja okkur sterkar við kirkjuna og koma tónlistarmenntun og söngkennslu þar inn?
Við erum nú þegar mjög dugleg að horfast í augu við að okkar eigin aðferð við að kenna er mögulega ekki sú eina rétta í allri veröldinni og miðast fræðslustarf okkar mikið að því að deila hugmyndum og hafa opinn huga. Ég leyfi mér að fullyrða að þessa séu verulegar framfarir, miðað við það sem áður var. Okkar samstarf og samvera innan félagsins einkennist af gagnkvæmri virðingu. Við erum líka að gera okkur grein fyrir því að breytt þjóðfélag myndar nýjar þarfir og ég held að við höfum öll notið þess að hlusta á Bjarneyju Ingibjörgu tala um starf sitt með yngra fólki, Jóhönnu Halldórs um eldri borgara og að lokum fyrirlesturinn um kynslóðabilið á ráðstefnunni í september.
Kannski er okkar þjóðfélag allt of lítið fyrir þess umræðu en við þurfum að horfast í augu við þessar spurningar líka. Á að vera til menntastofnun fyrir söng og aðra tónlist, sem menntar fólk á háskólastigi, með atvinnumennsku í huga? Hún er ekki til, þá söngnemendur sem eru með söng með aðalfag í listaháskólanum má telja á fingrum sér. Eða jú, hún er til, á mörgum stöðum, við erum öll að mennta fólk á framhaldsstigi og það vel.
Öðrum þræði er stórkostlegt offramboð á söngvurum um allan heim og mikil ábyrgð að beina nokkrum manni inn á þessa braut. Ég vona að með þessum skrifum geti ég hvatt til umræðu og skoðanaskipta. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað við viljum svo við endum ekki hver í sínu horni, auðveld bráð fyrir niðurskurð, skammsýni, svokallaða hagræðingu og hagsýnissjónarmið.