Á Mæðradaginn, sunnudaginn 10. maí næstkomandi kl. 20:00, verða tónleikar í Seltjarnarneskirkju til styrktar Mæðrastyrksnefnd. Flutt verða islensk einsöngslög sem tengjast móðurkærleikanum.
Mæðrastyrksnefnd var stofnuð fyrir rúmum 80 árum, til styrktar ekkjum og föðurlausum börnum eftir hörmulegt sjóslys, þegar togarinn Jón forseti strandaði út af Stafnesi. Í áranna rás hefur starf nefndarinnar orðið víðtækara. Sá hópur sem leitar til hennar verður sífellt stærri og fjölbreyttari og er það til marks um hve mikilvæg Mæðrastyrksnefnd er samfélagi okkar enn í dag. Það á ekki síst við á tímum efnahagsþrenginga sem koma niður á mörgum heimilum.
Yfirskrift tónleikanna, móðurást, er viðeigandi, enda móðurkærleikurinn samofinn starfi nefndarinnar frá upphafi. Flutt verða íslensk einsöngslög frá ýmsum tímum sem gera viðfangsefninu skil á mismunandi hátt. Flytjendur eru Anna Jónsdóttir sópran og Sigríður Freyja Ingimarsdóttir píanóleikari.
Inngangseyrir er kr. 1500, og rennur hann óskiptur til Mæðrastyrksnefndar.