Alexandra í Salnum sunnudaginn 19. apríl kl. 17

 Alexandra Chernyshova heldur útgáfutónleika í Salnum sunnudaginn 19. apríl kl. 17. Píanóleikari er Jónas Ingimundarson. Á diskinum eru lög eftir Sergei Ragmaninov og nefnist hann „Draumur“ eftir laginu Son (Сон).
 
Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona verður kynnir og les ljóðin í þýðingu Árna Bergmanns.
Miðaverð kr. 2200 / 1900
Tónleikarnir og útgáfan er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra og Sparisjóðnum í Keflavík.
 
 
Efnisskrá:
1.  Syng þú mér ei (Не пой, красавица) Op.4, nr.4
2.  Elskað hefi  ég mér til harms (Полюбила я на печаль свою) Op.8, nr. 4
3.  Draumur (Сон) Op.8, nr. 5
4.  Dísarunni (Сирень) Op.21, nr. 5
5.  Hér er gott að vera (Здесь хорошо) Op.21, nr. 7
6.  Ég bíð þín (Я жду тебя) Op.14, nr. 1
7.  Við gluggann minn (У моего окна) Op.26, nr. 10
8.  Þær svöruðu (Они отвечали) Op.21, nr. 4
9.  Döpur er nóttin (Ночь печальна) Op.26, nr. 12
10.  Eyjan litla (Островок) Op.14, nr. 2
11.  Vocalise (вокализ) Op.34, nr. 14

Александра Чернишова

(enskur ritháttur Alexandra Chernyshova, ísl. ritháttur Alexandra Tsjernísjóva)

er fædd í Kiev, Úkraínu árið 1979. Hún lauk tónlistarskóla,  píanónámi, árið 1993. Þaðan fór hún í söngnám í tónlistarháskólanum Glier í Kíev, því námi lauk árið 1998. 1997 söng Alexandra sitt fyrsta aðalhlutverk í óperunni í Kiev, Ivasik Telesik (strák) þá 18 ára gömul, í operuni Zerbakov. Frá árinu 1998 til 2000 söng hún sem einsöngvari með Úkraínsku sinfóníuhljómsveitinni í útvarpi í Kiev. Í apríl, árið 2002, var Alexandra valin besta nýja óperuröddin í keppninni “Nýtt nafn í Úkraínu”. Síðar það ár tók hún þátt í alþjóðlegri keppni óperusöngvara í Grikklandi, Rhodes og hafnaði þar í fjórða sæti, yngst keppenda. Frá árinu 1999 til 2003 stundaði Alexandra söngnám í söng akademíunni Nezdanova, Odessu / Úkraínu, kennari hennar þar og um leið yfirkennari söngdeildar var prófessor Galina Polivanova. Á þessum árum hefur hún sungið m.a. í óperustúdíóinu í Odessa með sinfóníuhljómsveit. Frá janúar 2003 var Alexandra fastráðin sem einsöngvari í óperunni í Kiev. Samhliða því söng hún sem einsöngvari með frægum landskarlakór í Úkraínu, Boyan.
 
Í lok október 2003 fluttist Alexandra til Íslands. Alexandra hefur haldið rúmlega þrjátíu einsöngstónleika hér á Íslandi, sungið með Karlakórunum Heimi og Hreim, gaf út sinn fyrsta geisladisk árið 2006. Síðar það ár stofnaði hún Óperu Skagafjarðar sem setti síðan upp óperuna La Traviata, Alexandra söng hlutverk Violettu. Ópera Skagafjarðar er þessa dagana að æfa óperuna Rigoletto og er stefnt að sýningu 21. maí í Skagafirði. Ópera Skagafjarðar hefur gefið út tvo geisladiska, annars vegar tónleika útgáfu með völdum lögum úr La Traviata og hins vegar perlur úr Rigoletto. Alexandra er listrænn stjórnandi Óperu Skagafjarðar og kórstjóri óperukórsins. Alexandra stofnaði Söngskóla Alexöndru í byrjun árs 2008, skólinn er starfræktur í Skagafirði og eru 35 nemendur í söng og/eða píanónámi. Söngskóli Alexöndru er í samvinnuverkefni með tónlistarskólum Austur og Vestur Húnavatnssýslu um verkefnið „Draumaraddir norðursins“, Alexandra er listrænn stjórnandi verkefnisins og kórstjóri Stúlknakórs Norðurlands vestra. Alexandra fékk úthlutað listamannalaunum í sex mánuði á þessu ári og verður tíminn m.a. notaður til að setja upp tvær mónóóperur í haust, annars vegar bresku óperuna Símann og hins vegar rússnesku óperuna Waiting. Geisladiskurinn „Draumur“, rómantísk lög eftir Sergei Ragmaninov er annar geisladiskur Alexöndru. Jónas Ingimundarson er undirleikari á diskinum. Árni Bergmann þýddi ljóðin á disknum yfir á íslensku.
 
Alexandra er með heimasíðuna www.dreamvoices.is
 

Jónas Ingimundarson, píanóleikari

 
Jónas stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Jónas hefur síðan starfað sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum, ýmist einn eða með öðrum, einkum söngvurum. Jónas hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og hljómdiska og hefur staðið fyrir öflugu tónlistarkynningarstarfi í tengslum við tónleikahald sitt. Jónas hefur fengið listamannalaun og notið starfslauna listamanna og hlotið margvíslegar viðurkenningar, svo sem heiðursverðlaun VÍS, Íslandsbanka og DV og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2001, þegar þau voru veitt í fyrsta sinn. Jónas Ingimundarson var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 og Dannebrog orðunni árið 1996. Jónas er tónlistarráðunautur Kópavogs og árið 2004 var hann valinn heiðurslistamaður bæjarins. Sama ár kom út bókin „Á vængjum söngsins – um ævi og störf Jónasar Ingimundarsonar” skráð af Gylfa Gröndal. Jónas nýtur heiðurslauna Alþingis.
 

Sergei Ragmaninov 1873-1943

 
Sergei Ragmaninov var ekki aðeins einn besti píanóleikari 20. aldarinnar heldur einnig síðasti fulltrúi rússnesk-rómantísku stefnunnar, sem Tsjajkovskí og Rimskí-Korsakov eru helstu fulltrúar fyrir.
Fjölskylda Ragmaninovs var upphaflega auðug en lenti í fjárhagserfiðleikum vegna eyðslusemi föður hans og álagið í kjölfar þess leiddi loks til skilnaðar foreldranna. Árið 1885, eftir fyrsta námstímabil Ragmaninovs við tónlistarháskólann í Pétursborg var hann  12 ára gamall sendur í Tónlistarháskólann í Moskvu til að læra á píanó hjá hinum stranga kennara Nikolai Zverev, en reglur hans kröfðust þess að píanóæfingar drengsins hæfust klukkan sex á hverjum morgni. Ragmaninov bjó heima hjá Zverev og það gaf honum tækifæri til að hitta virta tónlistarmenn eins og Anton Rubinstein, Aron Arenski og þann merkasta, Tsjajkovskí, sem hann varð fyrir sterkum áhrifum af.
Árið 1888 hóf Ragmaninov að sækja kennslustundir í tónsmíðum hjá Tanejev og Arenski og vaxandi mikilvægi þeirra fyrir hann í tónsmíðum leiddi til samningsslita við Zverev. Áður en hann útskrifaðist samdi hann vinsæl verk, eins og hinn tilfinningaríka píanókonsert nr. 1, síðan Trio élégiaque nr.1 og hina ofurrússnesku Tchaikovsky-legu einþáttungsóperu, Aleko (sem var útskriftarverkefnið hans og fékk hann hæstu einkunn fyrir) og eftir það tók tónlistarútgefandinn Gutheil hann upp á sína arma. Þá samdi hann Prélúdíu í cís-moll og fóru vinsældir hennar eins og logi yfir akur og færðu honum brátt heimsfrægð. Þó varð hann síðar styggur og leiður á því að áheyrendur heimtuðu stöðugt prélúdíuna.
Þrátt fyrir frægðina sat hann enn um sinn um kyrrt í Moskvu og stjórnaði þar einkaóperufélagi.  Árið 1898 fór hann til London og hélt þar frábærlega heppnaða tónleika, en þegar hann kom heim, varð hann fyrir því áfalli ofan í sigurhrósið á Vesturlöndum, að 1. sinfónía hans fékk hörmulegar móttökur í Pétursborg og féll hann þá í svo alvarlegt þunglyndiskast, að hann varð sem lamaður í nokkur ár og losnaði ekki úr því, fyrr en dáleiðslu var beitt. Í þakklæti fyrir það tileinkaði hann dáleiðslulækninum 2. píanókonsertinn, sem kom næstur á eftir og hefur orðið gífurlega vinsæll. Ragmaninov losnaði aldrei við skuggann af þessu áfalli og því urðu verk hans þunglyndisleg, sem áður voru glaðvær.
Hann öðlaðist mikil áhrif sem hljómsveitarstjóri Keisaralega stórleikhússins í Pétursborg þar sem Sjaljapín þá söng, en tvær af óperum hans misheppnuðust, mest af því hve textinn var lélegur. Féll hann þá aftur í þunglyndi og til að ná sér enn upp úr því og fá tíma til tónsmíða flýði hann til Dresden í Þýskalandi og samdi þar 2. sinfóníuna og tónaljóðið Eyju dauðans. Árið 1909 fór Ragmaninov í fyrstu hljómleikaför sína til Bandaríkjanna og fyrir þá ferð samdi hann 3. píanókonsertinn. Meðan hann ferðaðist þar um, hafnaði hann boði um að taka við stjórn hinnar frábæru Boston sinfóníuhljómsveitar. Í ferðinni samdi hann hljómsveitarverk við kvæði Edgars Alans Poe, Klukkurnar og taldi það sjálfur eitt af bestu tónverkum sínum. Þegar hann sneri aftur heim, varð hann stjórnandi Fílharmóníusveitar Moskvu, en í sorginni við fráfall vinar síns Skrjabíns (Скря́бин) sneri hann aftur að píanóinu. Síðasta meiriháttar verk hans, áður en hann yfirgaf Rússland í byltingunni, var Morgunbænarmessa.
Síðasta þriðjung ævinnar lifði hann sem útlagi á Vesturlöndum og var í förum á milli Bandaríkjanna og lystihúss síns á bökkum Lúsernvatns í Sviss. Hann ferðaðist þá víða um veröld til að halda píanótónleika, en var síönugur yfir því og fannst það bara vera tímasóun. Síðasta áratuginn var hann orðinn svo ríkur, að hann gat dregið úr þessu flakki og samdi þá sum sín bestu verk, eins og Rapsódíu um stef eftir Paganini fyrir píanó og hljómsveit, en þar vísar hann eins og í fleiri verkum til Dags reiðinnar (Dies irae). Þá samdi hann líka 3. sinfóníuna og Sinfónísku dansana.
Þó að almenningur sé hrifnastur af langri svellandi laglínu og hlýrri draumsærri hljómsveitafærslu, er gjöfulustu og persónulegustu list hans sennilega að finna í sönglögum hans.
Ragmaninov lést úr krabbameini á heimili sínu í Beverly Hills árið 1943, aðeins fjórum dögum fyrir sjötugsafmæli sitt.