Aldarafmælis Sigurðar Demetz verður minnst í Hörpu 28. okt. n.k.

Tónleikar í minningu Sig. Demetz

Norðurljós í Hörpu 28. október 2012 kl 16.

                                                                                              demmi

Óperusöngvarinn Sigurður Demetz Franzson (Vincenzo Maria Demetz) hefði orðið 100 ára 11. október í ár hefði hann lifað. Af því tilefni verður efnt til minningartónleika um hann í Norðurljósum í Hörpu sunnudaginn 28. október næstkomandi.

Fram koma ýmsir söngvinir og nemendur Sigurðar Demetz, Kristján Jóhannsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson, Signý Sæmundsdóttir, Guðjón Óskarsson, Bjarni Thor Kristinsson, Hallveig Rúnarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Guðbjörn Guðbjörnsson, 24 MA félagar, 3 klassískar og prúðbúinn píanisti og karlakórinn Fóstbræður. Kynnir verður Þór Jónsson.

Sigurður Demetz, sem í vinahópi var kallaður Demmi, kom til Íslands frá Ítalíu árið 1955. Hann ætlaði ekki að staldra lengi við en örlögin höguðu því þannig að hann bjó hér allt til æviloka 7. apríl 2006 og hafði mikil áhrif á söng- og menningarlíf Íslendinga. Hann stundaði söngkennslu víða um land auk þess sem hann söng hér nokkur óperuhlutverk og á tónleikum og stjórnaði kórum. Jafnframt varð hann vinsæll fararstjóri útlendinga í kynnisferðum um landið. Hann tók ástfóstri við landið og ann því ekki síður en æskuslóðum sínum í St. Úlrik í Grödendal, þar í Ölpunum á landamærum Austurríkis og Ítalíu sem heitir Suður-Tíról.

Sigurður Demetz hafði numið söng á Ítalíu og sönggáfa hans og hæfileikar vakið athygli tónlistarmanna á borð við dr. Karl Böhm og Herbert von Karajan. Hann söng víða um Evrópu við góðan orðstír en e.t.v. skein frægðarsól hans skærast þegar hann söng í Scala-óperunni í Mílanó á árunum í kringum 1950.

Ýmislegt varð Sigurði Demetz að fótakefli á ferlinum á umbrotatímum í álfunni, styrjaldir og veikindi, en hann taldi það gæfu sína að hafa borist til Íslands eins og fyrir guðlega forsjón. Frá því segir hann í ævisögu sinni Á valdi örlaganna sem kom út árið 1995.

Sigurður Demetz kvæntist Þóreyju Sigríði Þórðardóttur árið 1960. Hún lést árið 1992. Foreldrar Sigurðar Demetz voru Maria og Franz en systkini, öll yngri, Ulrike, læknisfrú, Ivo, forstjóri, Franz, listamaður, og Giancarlo, húsvörður, sem einnig er látinn.

Sigurður Demetz var merkur listamaður og söngfrömuður, lærimeistari margra kunnustu óperusöngvara íslensku þjóðarinnar. Hann var sæmdur stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu söngmenntunar á Íslandi, riddarakrossi ítalska ríkisins og kjörinn heiðursborgari í fæðingarbæ sínum. Hann var verndari Nýja söngskólans Hjartansmáls sem fékk nafnið Söngskóli Sigurðar Demetz eftir andlát hans.