Hin hrífandi sýning Svanasöngur, sem sýnd var í Íslensku óperunni við einróma lof gesta og gagnrýnenda, verður endurflutt sunnudaginn 27. febrúar næstkomandi kl. 20. Hér er um nýstárlega útfærslu á hinu þekkta tónverki Schuberts að ræða, Schwanengesang, þar sem Lára Stefánsdóttir dansar við tónlistarflutning þeirra Ágústs Ólafssonar baritónsöngvara og Gerrits Schuil píanóleikara, en sviðsetningu annaðist bandaríski danshöfundurinn Kenneth Oberly.
Gagnrýnendur fóru fögrum orðum um sýninguna í ýmsum miðlum:
* * * * – R.Ö.P., Mbl.
„Skemmtileg, frumleg og athyglisverð sýning“ – J.S., Fbl.
„Virkilega ánægjuleg kvöldstund“ – H.J., Víðsjá
Óvenjuleg uppfærsla á Svanasöng Schuberts var flutt í Íslensku óperunni föstudagskvöldið 4. febrúar nk. kl. 20. Það eru þau Lára Stefánsdóttir dansari, Ágúst Ólafsson baritónsöngvari og Gerrit Schuil píanóleikari sem flytja ljóðaflokkinn í nýstárlegri útfærslu bandaríska danshöfundarins Kennet Oberly. Verkefnið er samvinnuverkefni Íslensku óperunnar og Pars Pro Toto.
Miðaverð er 2.500 kr. – smelltu hér til að kaupa miða!
Ljóðatónlist Schuberts þykir ein mest hrífandi tónlist sem skrifuð hefur verið, og er hún reglulega flutt af söngvurum og píanóleikurum í tónleikasölum um allan heim. Sá minnst þekkti af þremur helstu ljóðaflokkum tónskáldsins er Svanasöngur, sem gefinn var út eftir andlát hans og þykir með fegurstu tónsmíðum rómantíkurinnar.
Íslenska óperan gengur nú til samstarfs við dansflokkinn Pars Pro Toto og færir Schubert-aðdáendum nýstárlega útfærslu á þessu þekkta tónverki hans, þar sem bandaríski danshöfundurinn Kennet Oberly sviðsetur verkið fyrir dansara, en hann hefur sviðsett mörg sérstök verk, þar á meðal Drakúla og Þyrnirós.
Það er einn færasti og reyndasti dansari Íslands sem dansar í verkinu; Lára Stefánsdóttir, sem um árabil hefur fært landsmönnum vönduð og framsækin dansverk, þar á meðal dansverkin Systur og Bræður í samvinnu við Ástrós Gunnarsdóttur.
Tónlistin er flutt af þeim Ágústi Ólafssyni og Gerrit Schuil, sem báðir eru íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnir, en þeir fluttu alla þrjá ljóðaflokka Schuberts; Malarastúlkuna fögru, Vetrarferðina og Svanasöng á Listahátíð í Reykjavík í fyrra við frábærar undirtektir. Gerrit hefur um árabil verið einn virtasti píanómeðleikari landsins og Ágúst þarf vart að kynna, en hann hefur sungið mörg stór hlutverk við Íslensku óperuna á undanförnum árum og hlaut m.a. Grímuna árið 2010 sem söngvari ársins, fyrir hlutverk sitt sem Belcore í Ástardrykknum eftir Donizetti hjá Íslensku óperunni árið 2009.
Búningar eru í höndum eins fremsta búningahönnuðar landsins, Filippíu I. Elísdóttur, sem hefur margoft hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín í leikhúsi en lýsing er í höndum Magnúsar Arnars Sigurðarsonar.