Afmælistónleikar Mozarts í Grafarvogsvirkju
Afmælistónleikar Amadeusar Mozart verða haldnir þann 27. janúar nk. í Grafarvogskirkju kl 20 en þá verða liðin 257 ár frá fæðingu þessa mikla meistara. Full ástæða er til þess að minnast Mozarts á hverju ári en hann breytti músík heimsins á sinni stuttu æfi (1756-1791) og hefur tónlist hans enn mótandi áhrif á allt tónlistarlíf.
Söngvararnir Gréta Hergils sópran og Ágúst Ólafsson baritón syngja ásamt með, Matthíasi Stefánssyni, fiðluleikara, Eydísi Franzdóttur, óbóleikara og Antoníu Hevesi, píanóleikara.
Á efnisskrá tónleikana er modettan Exsultate jubilate K165, fiðlueinleikurinn Rondo í D-dúr K250, og dúettar og aríur úr óperunum Don Giovanni og Brúðkaupi Figarós.
Gréta Hergils hefur sungið víða opinberlega undanfarin ár t.d. í Íslensku óperunni, síðast með hlutverk í Il Trovadore, Frostrósum klassík, með Tenórunum þremur, á skemmtunum ýmis konar og við kirkjulegar athafnir. Einnig gaf hún nýverið út diskinn Ave María, en þar er að finna ellefu Ave Maríu lög samin frá 16 öld til dagsins í dag.
Ágúst Ólafsson hefur þrisvar verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut Grímuverðlaunin 2010 sem Söngvari ársins fyrir hlutverk sitt í óperunni Ástardrykknum Ágúst söng hlutverk Papagenó í Töfraflautunni í haustið 2011 en syngur nú einnig víða á erlendri grund.
Matthías Stefánsson leikur með hljómsveitunum Pöpunum og South River Band. Hann hefur tekið þátt í fjölda tónleikauppfærsla m.a. í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku Óperunni, með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur leikið inn á fjölmargar plötur, þar á meðal fyrir Sigur Rós, Björgvin Halldórsson, Ríó Tríó, Bjarna Arason, Magna og Ave Maríu disk Grétu Hergils.
Antonía Hevesí er listrænn stjórnandi og píanóleikari hádegistónleikaraðar Hafnarborgar. Hún starfar sem orgel- og píanómeðleikari á Íslandi og æfingapíanisti við Íslensku óperuna.
Eydís Franzdóttir hefur komið fram sem einleikari með kammerhópum og hljómsveitum víða um Evrópu, Norður-Ameríku og á Íslandi. Hún hefur látið að sér kveða við tónleikahald landsins, er m.a. meðlimur í Caput-hópnum og skipuleggjandi 15:15 tónleikasyrpunnar í Norræna húsinu.
Motzart samdi Exsultate jubilate aðeins 17 ára gamall undir áhrifum frá ítölskum óperum þess tíma. Þær óperur eru nú fallnar í gleymsku og dá en módetta Mozarts er enn jafn fersk enda eitt glæsilegasta kirkjutónverk allra tíma.
Aðgöngumiðar verða seldir í kirkjunni við innganginn fyrir tónleikana og er miðaverðið kr. 1.000.-