Aðalfundur FÍS var haldinn 24. október 2009 í Söngskóla Sigurðar Demetz. Signý Sæmundsdóttir formaður setti fund og gaf fundarstjóra orðið; Theodóru Þorsteinsdóttur, skólastjóra Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Hér á eftir er sagt frá því sem fram fór á fundinum.
1. Skýrsla stjórnar: Signý sagði frá starfsemi sl. ár.
Haldnir voru nokkrir fræðslumorgnar. Hlín Pétursdóttir kynnti Tomatis-aðferðina, sem þjálfar heyrnina m.þ.a. hlusta á síaða tónlist þar sem lægri tíðni er tekin út. Ólöf Kolbrún fjallaði um námskrána og undirbúning áfangaprófa. Áætlað námskeið Paul Farrington féll niður vegna kreppu.
Í vetur er fyrirhugað að Ingveldur Ýr Jónsdóttir kynni kennsluefni sitt á diski. Í febrúar munu Hlín Pétursdóttir og Laufey Helga Geirsdóttir kynna Lichtenberg fræðin. Einnig verður rætt um íslenska þjóðlagið, en ekki hefur verið ákveðið hver sér um þá kynningu.
Þrír fundir voru hjá stjórn. Þeir eru fjörugir, skipst er á skoðunum. Upp kom sú hugmynd að hafa „happy hour“ fyrir félagsmenn, Hlín mun segja frá þeirri hugmynd. Einnig söngkeppni eða masterklassar hafa verið í deiglunni.
2. Reikningar voru samþykktir.
Eign félagsins er 619,640. Þar sem fjárhagsleg staða félagsins er allgóð, er e.t.v. kominn grundvöllur til að halda ráðstefnu í einn dag.
3. Stjórnarkjör. Dagrún Hjartardóttir var kjörin í stjórn í stað Bjarkar Jónsdóttur.
4. Lagabreytingar voru engar á dagskrá.
5. Ákveðið var að hafa árgjald óbreytt.
6. Önnur mál.
A.
Dagrún sagði frá ráðstefnu í Dresden í lok ágúst. Þar voru samankomnir HNE læknar, talmeinafræðingar og söngkennarar á PEVOC (panel voice conference).
Þetta var þriðja ráðstefnan sem Dagrún hefur farið á tengt söngkennarafélaginu. Ráðstefna af þessu tagi hjá PEVOC er haldin á 2 ára fresti.. PEVOC var stofnað af Johan Sundberg. Allt skipulag var með miklum ágætum, t.d. fengu allir glósur úr öllum fyrirlestrum, skjalataska var afhent í upphafi með blýöntum, pennum og öllum upplýsingum. Sameiginlegir fyrirlestrar voru í stóra salnum á morgnana. Sem dæmi var tekið fyrir: Tölvutækni til að þjálfa útlendinga í að hafa hljóð rétt. Einnig að nú hefur tekist að mæla að loft fer til baka svo að raddböndin fara í sundur aftur eftir lokun.
Skipt var niður í vinnuhópa eftir hádegi en einnig mátti velja um 8 minni fyrirlestra. Sem dæmi: Stresstengd raddvandamál. Olaf Bär átti að fjalla um þýska sönglagið, en það fólst í því að hann fékk nemanda til að syngja sömu setninguna allan tímann. Andreas Schmidt talaði um þróun í flutningi síðustu 100 ár. Að stjórna vibrato, meðferðarúrræði v/raddbandalömunar, líkamsstaða. Breath, voice and stress – raddvandamál leyst m.þ.a. huga að öndun. Gerðar voru líkamsæfingar, allir urðu rólegir og komnir með djúpöndun e. 40 mín. Bel canto og Broadway. Raddbandanudd.
Mjög gagnleg ráðstefna, en næsta ráðstefna verður haldin í Marseille e. 2 ár.
Þá sagði Dagrún frá því að hún hefur hafið samstarf með HNE deild í Fossvogi og Heyrnar- og talmeinastöð fyrir söngkennaranemendur.
B.
Hlín Pétursdóttir sagði frá hugmynd um „happy hour“, sem haldinn verður fyrsta föstudag í hverjum mánuði 5-7. Föstudagur 6. nóv. og 4. des. Ætlunin er að hafa þar vettvang til að hittast og ræða málin á óformlegum nótum.
C.
Signý sagði frá alþjóðlegu söngkennararáðstefnunni í París 15.-19. júlí. Hún var haldin í eldgömlu leikhúsi frá 19. öld. Folie Bergère.
Á ráðstefnunni var svokallað Young professional program, nemendur frá 11 löndum voru þátttakendur. Mikil gleði var meðal krakkanna, góð vinna, góðir nemendur. Fyrsta kvöldið komu þau öll fram, fluttu óperutónlist og þjóðlög frá hverju landi fyrir sig.
Á morgnana var chi gong eða jóga í anddyrinu sem gaf góðan grunn fyrir langar setur, enda margir fyrirlestrar í boði. Þeir sem vöktu mikla athygli voru:
Susana Zapke um uppruna sönglagsins frá 14. og 15. öld.
Richard Cross hélt masterklass „þvert á stíl“. Hann lagði áherslu á að hugsað væri um um stíl, hver rödd fengi að njóta sín, röddin væri frjáls, ekki pressuð, brjóst- og höfuðtónar blandaðir eðlilega.
Marybel Dessagnes, sem kennir tónsmíðar og tónheyrn, sagði frá tónheyrnaræfingum sem hún hefur samið í stíl Niccola Vaccai æfinganna.
François Le Roux fjallaði um franska sönglagið, lærði í Bordeaux, fór í framburð og stíl. Hann lagði áherslu á að kynna sér ljóðskáldin og að bera saman lög mismunandi tónskálda við sama ljóð.
Lukas Haselboeck organisti í Vínarborg fjallaði um austurrísk/þýsk tónskáld.
Marianne Liljas fjallaði um David Björling, föður Jussi. Hann var fæddur 1874 og lærði söng í Svíþjóð og New York. Giftist svo píanista og þau eignuðust syni. Stofnaði söngskóla, kenndi sonum sínum frá 4 ára aldri. Safn er til um Jussi fyrir utan Stokkhólm. Móðir þeirra dó þegar Jussi var 8 ára gamall. Þrír synir sungu við útförina. Mikil stemning myndaðist í salnum í þessum fyrirlestri.
Sarah Sanders hélt masterklass um popptónlist og míkrófónnotkun.
Janice Chapman frá Guildhall hefur gefið út bók, Singing and Teaching Singing. Hún fjallaði um hvernig hægt væri að ná fljótvirkari árangri í að þjálfa öndun með hópvinnu í styrktaræfingum fyrir öndun, einu sinni í viku.
Dominique Desmons, spilaði og söng chansons og fjallaði um kaffihúsatónlistina, Latínuhverfið, stílinn og sagði sögur af söngvurum.
Þá voru kynnt kínversk og brasilísk sönglög o.m.fl.
Hægt var að skoða bækur og nótur í anddyrinu, plaköt með kynningu. Blanda geði.
Einnig var pallborð með umboðsmönnum, þar sem rætt var hvað söngvarinn þarf að hafa þegar hann kemur í prufusöng, 100% tækni, sjálfstraust, kunnáttu og stáltaugar.
Hann þarf að hafa dómgreind til að vera raunsær á getu sína og velja verkefni við hæfi, syngja bestu aríuna sína fyrst. Hafa gott CV, ekki langt. Standa klár á tungumálum og framburði. Og svo framvegis.
Næsta ráðstefna verður í Ástralíu 2014. Nú er því um að gera að byrja að leggja fyrir í ferðasjóð.