Ýmsar útgáfur hafa verið í gangi af ljóðinu við „Í fjarlægð“ eftir Karl O. Runólfsson og Cæsar (Valdimar Hólm Hallstað). Ég rakst á blaðagrein í fórum Jónasar Ingimundarsonar, sem ætti að leiða okkur í allan sannleikann um upprunalega ljóðið. Hún er úr Morgunblaðinu 27. júli árið 2000 eftir Garðar Cortes:
„Á efnisskránni voru þrjú tónverk eftir Karl. Fyrst skal nefna op. 1, sönglagið ástkæra Í fjarlægð. Hér var eitt fegursta sönglag hans spilað á trompet, sem er í sjálfu sér allt í lagi að gera ef ekki er söngvari til staðar til að syngja þennan yndislega texta. Svo var þó ekki í þetta sinn.
Tilurð þessa lags er saga sem vert er að rifja upp. Fyrri kona Karls, Margrét, lá á banabeði á Kristneshæli við Eyjafjörð. Von var á Karli í heimsókn en veður hamlaði för hans og óvíst var hvort hann næði til hennar áður en yfir lyki. Þar lá á sömu deild hagmæltur maður, Valdimar Hólm Hallstað, eða Cæsar eins og hann kaus þá að kalla sig. Bað hún hann að yrkja sér í hugarstað ljóð til ástvinar síns ef hún héldi ekki út þar til hann kæmi.
Þegar Karl loks komst á leiðarenda beið hans bréfkorn við rúmgaflinn en konan var látin. Þar í var kveðja hennar og ástarjátning til hans, vinarins, sem fjöllin skildu að þegar kallið kom:
Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við,
minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?
Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina,
sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.
Kvæðið hefur gegnum árin verið sungið í allskonar villuráfandi útgáfum, en hér er það, eins og skrifað beint úr penna Valdimars Hólm Hallstað, lesið af bréfkorninu sem hann skrifaði það á.“
Bergþór